Þá er ég stödd á kaffihúsi með netsambandi þann 5. maí og tvennir tónleikar til viðbótar að baki. Hellvar og Vicky Pollard spiluðu á Get Lucky bar á laugardagskvöld, þar sem um 10 kínverskar sveitir léku einnig og þar var furðuleg stemning. Vel var tekið í íslensku sveitirnar en þær kínversku voru nokkuð einsleitar, og greinilegt að metall og glam er tískan í kínverska bransanum í dag. Þær voru allar búnar að liggja yfir töktum vestrænna fyrirmynda sinna, og sýndu tilþrif í gítarsólóum og grettum og pósum á afar tilkomumikinn hátt. Ekkert bandanna var þó sérstaklega eftirminnilegt, og sum þeirra sóttu heilu og hálfu kaflana í þekkt rokklög sögunnar, án þess að það virtist skipta máli fyrir áhorfendur. Allt annað var uppi á teningnum í gær á Mao live, sem er stórfínn tónleikastaður. Þar voru íslensku sveitirnar að spila ásamt 4 kínverskum böndum sem voru frumlegri og meira skapandi en kvöldið áður. Á Mao live var algjörlega brjálað stuð, enda síðasti séns að rokka feitt í Kína, í bili að minnsta kosti. Hljómurinn var góður og áhorfendur algjörlega að fíla þetta. Það var því ekkert verið að flýta sér heim eftir gigg, heldur gengið um og selt Hellvar-diska. Klukkan vel gengin í 2 þegar við rólegri hópurinn héldum heim á leið. Það hefur skapast undarleg hefð meðal Hellvar, að borða kvöldmat eftir gigg, á bilinu miðnætti til 2 eftir miðnætti, og í gær fundum við þennan fína veitingastað sem var opinn allan sólarhringinn og borðuðum 3-réttað og drukkum 3 bjóra með, og borguðum fyrir um 700 krónur íslenskar. Ef við gætum bara tekið kínversk verð með okkur heim, væri margt svo miklu einfaldara. Í morgun fengum við svo smá kaffispjall og sögustund hjá Axel Nikulássyni sendiráðunauti í íslenska sendiráðinu, sem einnig er gamli sögukennarinn minn úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Það reyndist hin besta skemmtun, og svo fóru flestir að skoða Kínamúrinn, en við fórum að skoða fólk. Á morgun er ferðadagur, og við græðum aftur tímann sem við töpuðum á leið út, þannig að þrátt fyrir 11 tíma flug til London leggjum við af stað klukkan 14 og lendum á Heathrow klukkan 18. Mikið er nú búið að vera gaman.
Kær kveðja,
Heiða
No comments:
Post a Comment