The Fanpage of the Icelandic band Hellvar by Wim Van Hooste

Thursday, January 18, 2007

Review by Heida Eiriksdottir of the Concert of Ian Anderson 23.5.2006 Laugardalshollin Reykjavik

23.05.2006

Viðburður: Ian Anderson

Staðsetning: Laugardalshöllin

Nánari upplýsingar:
http://www.midi.is/default.aspx?pageID=10&eventID=4397&uID=44

Umsögn:
Ian Anderson í Höllinni í gær Loksins fæ ég tækifæri til að sjá þennan mikla snilling, lagahöfund og þverflautuleikara á sviði, en ég var eitthvað öðrum hnöppum að hneppa þegar Jethro Tull spiluðu á Akranesi árið 1992. Tónleikarnir hófust klukkan átta og á sviðinu komu nokkrar skuggaverur sér fyrir og settu sig í stellingar, og svo birtist aðalmaðurinn, Ian Anderson, klæddur eins og nokkurs konar sjóræningi, í svörtum buxum, hvítum stuttermabol, svörtu vesti og með svartan klút bundinn yfir höfuðið.Hann leit vissulega út fyrir að vera virðulegur sjónræningi, en sjóræningi engu að síður. Hann stal líka senunni, eða „rændi sjóinu“ ítrekað þetta kvöld, þegar hann fór hamförum á flautuna. Hans sérstaða í gegn um tíðina hefur verið að fara eigin leiðir, og vera ekkert að reyna að hljóma eins og neinn, og það er líka hans helsti styrkur. Hann syngur til að mynda oft inn í flautuna um leið og hann er að blása í hana og við það myndast hreint yndislegir tónar. Það má því segja að hann sé frumkvöðull í „noice-tónlist“, ásamt því að vera nútímatónskáld. Það sem hann er þó samhliða öllu þessu er: Rokkari. Hann er líka þrælfyndinn breskur karl og reitti hann af sér brandarana allt kvöldið. Húmorinn var breskur og groddalegur á köflum og fell í mjög góðan jarðveg hjá mér og öðrum áhorfendum, sem veltust um af hlátri allt kvöldið. Tónlistin er líka full af kómískum innskotum, óvæntum köflum og ævintýralegum beygjum út af hinum hefðbundnu vegum tónlistar. Ian Anderson keyrir sem sagt utan vegar þegar honum sýnist svo, og uppsker einlæga virðingu mína fyrir vikið. Auðvitað á maður að gera það sem manni sýnist, þegar manni sýnist svo. Helsti galli tónleikanna: ALLT OF LÁGT! Það þarf ekki að passa eyrun svona vel, þótt ekkert sé nema gott eitt um heilbrigða eyrnavernd að segja. Ég vil ekki heyra hvað fólkið í næstu röð er að tala um. Svo ætti að venja Íslendinga af því að fara alltaf að klappa með lögum öðru hverju. Það er aðeins of elliheimilislegt, eitthvað, og leiðist langoftast út í að vera ekki í takt við lagið og þá truflar það bara. Niðurstaða: Ian Anderson er snillingur, og ég skemmti mér konunglega við að fylgjast með þessum skrýtna karli sýna töfrabrögð á flautu á sviðinu í Laugardalshöll á þriðjudagskvöldi.
Heiða Eiríksdóttir
heida@ruv.is

No comments: