Hellvar leikur á Græna hattinum
Hljómsveitin Hellvar mun leggja land undir fót um helgina og leika á Græna hattinum á Akureyri. Á dagskrá verða lög af frumrauninni Bat Out of Hellvar sem kom út fyrir skemmstu í bland við annað efni. „Já, við erum spennt fyrir ferðinni enda er þetta í fyrsta skipti sem við spilum á Akureyri,“ segir Heiða söngkona Hellvars.
„Tónlistarlífið er líka í blóma á Akureyri og Græni hatturinn skemmtilegur staður að spila á,“ bætir hún við. „Við erum líka nýbúin að halda útgáfutónleika sem heppnuðust alveg glimrandi vel.“ Umræddir útgáfutónleikar Hellvars vöktu athygli í síðustu viku en þeir fóru fram í strætisvagni sem ferðaðist frá Hlemmi og endaði á Lækjartorgi með smá krókaleið. Heiða segir að myndast hafi góð stemning í þessum óvenjulegu aðstæðum og hún lofar jafn góðri stemningu á tónleikunum á Akureyri.
Hellvar er upphaflega samstarfsverkefni Elvars Geirs Sævarssonar og Heiðu Eiríksdóttur og hljómsveitin var stofnuð í Berlín þar sem þau bjuggu. Í ár bættust svo við gítar- og hljómborðsstúlkan Alexandra Ósk Sigurðardóttir og bassaleikarinn Sverrir Ásmundsson. Á laugardag mun hljómsveitin árita nýja diskinn í Eymundsson Hafnarstræti og á Glerártorgi.
Source: Dagur
No comments:
Post a Comment