The Fanpage of the Icelandic band Hellvar by Wim Van Hooste

Thursday, October 25, 2007

Review by Heida of Björk's concert @ Madison Square Garden, New York


Ofurhetjuklúbbur Bjarkar hinnar ótrúlegu
Björk
í Madison Square Garden

Frábær "Orkan sem Björk sendir frá sér til áhorfenda sinna er næstum því lífshættuleg," segir meðal annars í dómi um tónleika Bjarkar í New York.
MÁNUDAGSKVÖLD í New York eru rétt eins góð og hver önnur kvöld til að fara á brjálaða tónleika og dansa, því New York er jú borgin sem aldrei sefur. Það var því alveg snarbrjálað stuð á tónleikum Bjarkar Guðmundsdóttur í Madison Square Garden síðastliðið mánudagskvöld, 24. september. Hún hefur verið að ferðast um Bandaríkin og Evrópu síðastliðið ár að fylgja eftir nýjustu plötu sinni, Volta, og þessir tónleikar voru þeir síðustu í röðinni í Bandaríkjahlutanum. Hún hóf tónleikaferðalagið að þessu sinni á eftirminnilegum tónleikum í Laugardalshöll í apríl en greinilegt er að bandið hefur slípast enn meira til síðan þá. Hinar tíu íslensku stúlkur í lúðrasveitinni Wonderbrass komu dansandi inn á sviðið í upphafi tónleikanna og gjörsamlega heilluðu alla upp úr skónum með litadýrð, útgeislun og kátínu. Mark Bell sá um taktana, um trommu- og slagverksleik sá Chris Corsan, Damien Taylor spilaði á takka og tæki og Jónas Sen spilaði á ýmiss konar hljómborð.
Eftir að hafa villst aðeins í New York í leit að Madison Square Garden var notalegt að koma sér fyrir í sætinu og sjá og heyra nokkur lög með upphitunarsveitinni The Klaxons. Þeir voru hressilegir og höfðu náð upp þónokkurri stemningu í velfullri tónleikahöllinni þar sem flestir voru nú þegar farnir að stíga dans.
Þegar Björk sveif svo inn á sviðið í fyrsta lagi kvöldsins, "Earth Intruders", ætlaði allt að tryllast. Að horfa á stemninguna á sviðinu var eins og að vera mættur í eitthvert svakalega skemmtilegt bjóð þar sem þemað var: "Vertu glaður eða vertu úti". Fyrri hluti tónleikanna var aðeins hægari og magnþrungnari með yndislegri útgáfu af "Hunter", dáleiðandi "Unravel" og Antony úr Antony and the Johnsons sem söng fallegasta dúett í heimi með Björk, "Dull Flame Of Desire", algjörlega ógleymanlega.
Þegar "Hyperballad" hljómaði í síðari hluta prógrammsins urðu vatnaskil. Þá var eins og allir 15.000 áhorfendurnir gjörsamlega slepptu sér og hrópuðu og hoppuðu og tilfinningin var nú sú að við værum öll saman í geðveikasta teknópartíi í heimi. Björk spilaði á áhorfendur eins og enn eitt exótíska hljóðfærið í safninu sínu og ég held svei mér þá að ég hafi aldrei verið á tónleikum þar sem allir sem einn hreinlega gleymdu sér í stað og stund og urðu taktur og dans. Orkan sem Björk sendir frá sér til áhorfenda sinna er næstum því lífshættuleg og í raun ótrúlegt að ein lítil stúlka frá Íslandi hafi svona mikla og fallega útgeislun sem lætur öllum líða eins og þeir séu með henni í einhverjum ofurhetjuklúbbi sem er ósigrandi.
Uppklappslagið, "Declare Independence", var lokahnykkurinn í skemmtilegasta mánudagspartíi sem ég hef farið í.
Ragnheiður Eiríksdóttir
Source:
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1167533

No comments: