The Fanpage of the Icelandic band Hellvar by Wim Van Hooste

Thursday, May 01, 2008

Hellvar í Kína - Bloggfærsla Heiðu # 2 & # 3


Elvar getting a Chinese Haircut (Photograph by Sverrir)
# 2
Gleðilegan verkalýðsdag! Hellvar og Vicky eru nú búin að fá nasaþefinn af alls kyns kínversku fíneríi. Eftir að hafa átt ansi erfiða nótt í 11 tíma flugferð frá London til Peking, var farið beint á hótelið og flestir fengu sér kríu. Um kvöldið fór hópurinn í nokkrar ævintýraferðir, og sá hluti sem lagði seinna af stað og labbaði um hótelhverfið endaði á einhvern furðulegan hátt á diskóteki sem var upp á 7. hæð. Þar voru innréttingar frá 9. áratugnum og kínversk ungmenni að dansa á dansgólfi í miðjunni, umkringd vörðum í einkenningsbúningum sem stóðu og pössuðu að allt færi vel og rétt fram. Vicky Pollard-stúlkurnar sem voru á svæðinu voru umkringdar aðdáendum sem eltu þær brosandi. Hápunktar gærdagsins, 30. apríl, voru tveir: Annars vegar þegar Hellvar og Eyrún gítarleikari Vicky Pollard skelltu sér í kareokí og spunnu m.a. íslenska texta við kínversk stuðlög, og þegar haldið var rækilegt rokkarapartý á hótelherbergi sem stóð framundir morgunn. Þar var hinn þýski trommari Olaf að bjóða fólki upp á að raka hanakamba og tvær stúlkur, ein úr hvorri sveit þáðu þá þjónustu við mikinn fögnuð (ég er ekki ein þeirra!!!). Í morgun hefur helmingur Hellvars, sá hressari, farið og kannað hinn svonefnda Silkimarkað. Það er skemmst frá að segja að við fengum nett kúltúrsjokk, því þar stóðu þúsundir bandbrjálaðra Kínverja að reyna með góðu eða illu að selja túristunum hluti sem þau þurftu ekki, á uppsprendu verði. Við komumst undan við illan leik, og erum nú á leið í hádegismat. Plön dagsins eru að finna heilsulind og finna veitingastað sem býður upp á hundakjöt, skjaldbökur og annað spennandi. Tónleikaröð Hellvar og Vicky hefst svo annað kvöld þegar sveitirnar leika í Midi Music School á svokölluðu Mini-Midi Festival. Þann 3. maí er svo spilað á Get Lucky Bar, þar sem heppnin verður með okkur, og 4.maí er það rokkbúllan MAO sem spilað er á. Mikil tilhlökkun er í hópnum, því heyrst hefur að kínverskir áhorfendur séu frábærir.
Þar til næst,
Heiða
# 3
Jæja, nú erú Hellvar og Vicky Pollard búnar að spila eina tónleika fyrir kínverska áhorfendur í Midi-skólanum, og ég verð að segja að mér er nærri allri lokið! Hvílíkt fólk og hvílík gleði sem bjó í mannskapnum...ég hef aldrei kynnst öðru eins. Báðar hljómsveitirnar fóru á kostum í spilamennsku og gáfu ekkert eftir. Dansgólfið var þétt og fullt af hoppandi og öskrandi glöðum ungmennum sem dönsuðu einhverja óútskýranlega blöndu af rokki og hringdönsum, sem leystust svo upp í snar-geðveiki. Allt var tekið upp á vídeó og fæ ég tónleika Hellvars senda heim þegar búið er að vinna þá, góð þjónusta það! Eftir tónleikana voru biðraðir af hressum krökkum sem vildu fá að stilla sér upp með hinum vestrænu rokkurum, fara í rokkpósur og láta taka af sér mynd. Svo var farið baksviðs og borðaður kínverskur núðluréttur (sem heitir nú bara núðluréttur hér...) og það var hress en þreytt hersing sem kom upp á hótel milli ellefu og tólf í gærkvöldi. Hápunktur ferðarinnar er enn tvímælalaust að fá að spila fyrir svona frábæra áhorfendur. Hápunktur númer tvö er hundakjötið sem ég, Elvar og Sverrir úr Hellvar gæddum okkur á í kvöldmat þann fyrsta maí. Hundur er góður...með miklu chilli og hvítlauk. Þar hafiði uppskrift dagsins.
Þar til næst,
Heiða

No comments: