The Fanpage of the Icelandic band Hellvar by Wim Van Hooste

Sunday, August 22, 2010

Heiða "Svarið" (The Answer) Review in Morgunblaðið

Review in Daily Newspaper Morgunblaðið
on 25. November 2000
Hressandi tilbreyting frá Heiðu og félögum
SVARIÐ
Svarið er fyrsta sólóplata Heiðu Eiríks
Lög og textar: Heiða Eiríks
Upptaka og upptökustjórn: Birgir Örn Thoroddsen
Hljóðfæraleikur: Birgir Örn Thorodddsen gítar og ýmis fríkhljóð, Þorvaldur H. Gröndal trommur, Sverrir Ásmundsson bassi, Sigurður Björn Blöndal bassi, Birgir Baldursson trommur, Guðni Finnsson bassi, Ólafur G. Ólafsson trommur Valdi Kolli bassi, Stefán Magnússon gítar, Freyr Eyjólfsson mandólín, Vernharður Jósepsson bassi, Sigurjón Kjartansson gítar, Samúel J. Samúelsson básúna, Lára Lilliendahl Magnúsdóttir trompet, Hildur Guðnadóttir selló, Úlfur Eldjárn farfísa, Jóhann Jóhannsson.
Tekið upp í stúdíó Rusli 2000.
Útgefandi: Japis.
Platan er styrkt af tónskáldasjóði FTT.
EINN dropi jólaplötuflóðsins 2000 er sólóplata Heiðu Eiríks. Þykir mér dropi þessi reyndar vera í stærra lagi og spái plötunni töluverðri athygli, jafnvel vinsældum. Ég myndi síður en svo lasta það ef platan yrði söluhá, því mér finnst hún standa undir öllum kröfum sem hægt er um gæði. Heiða er góður lagasmiður og textarnir eru alls ekki sem verstir. Fátt er hægt að finna að hljóðfæraleiknum og útsetningarnar eru hreint ágætar.

Lögin eru öll mjög frábrugðin hvert öðru og spanna stílbrigðin allt frá órafmagnaðri tilfinningasveiflu yfir í argasta pönk. Því er það rödd og söngstíll Heiðu sem heldur plötunni saman og gerir hana minna sundurleita. Reyndar er það svolítið erfitt að láta plötuna spilast í gegn, því lögin kalla svolítið á mismunandi stemmningar. Það getur til dæmis verið erfitt að vera kippt úr hugljúfu lagi í rokk og stuð. Þetta ætti þó að vera hægt að leysa með því að búa til sína eigin lagaröð á geislaspilaranum. Veislur held ég þó að séu hvað bestur vettvangur fyrir plötuna, því þá geta gestirnir dansað og hvílt sig á víxl. Hún hefur nefnilega á sér allsterkar stuð-hliðar.

Heiða sýnir það og sannar hér með að hún er mikil söngkona. Hún hefur breitt raddsvið sem hér nýtur sín vel. Raddanirnar eru flottar og laglínurnar hæfa rödd hennar fullkomlega, svo útkoman verður áreynslulaus og beint frá hjartanu. Helsta aðalsmerki plötunnar er enda að mínu mati söngurinn.

Í mörgum laganna má heyra andblæ sem minnir á Unun forðum, sem er bara gott og blessað, en önnur og fersk áhrif eru einnig áberandi í þessu stórgóða framlagi Heiðu. Það er eiginlega ófært að fara að tíunda hvaða lög eru best og hvaða lög eru síðri á plötunni. Ég tel það verði að vera hausverkur hvers og eins sem á hana hlýðir. Lögin eru einfaldlega öll góð, en bara svo frábrugðin hvert öðru, svo eðlilega falla þau misjafnlega að smekk manna. Lagið sem mér féll þó best, svona eftir nokkuð skamman áheyrnartíma, er alveg örugglega lag númer þrjú ,,103 mars", sem er fallegt dægurlag í mjög smekklegri órafmagnaðri útgáfu. Einnig finnst mér textinn við það vera sá besti á plötunni. Laglínan er svolítið skemmtilega skandinavísk einhvern veginn, minnir jafnvel á sænska söngvaskáldið Kornelis Vresvik og hans líka.

Algjörlega ófært reynist mér aftur á móti að finna dæmi um slæmt lag á plötunni. Lögin hafa einfaldlega eitthvað við sig sem gerir að verkum að manni getur ekki fundist þau vond, jafnvel þó svo að manni líki þau ekki beinlínis, svona í fljótu bragði. Platan verður svo aftur betri við hverja hlustun.

Eftir þennan mikla lofsöng er vægast sagt nauðsynlegt að taka fram að verkefnið er stórt. Um það bil tuttugu manns koma að plötunni með einum eða öðrum hætti. Það er ótvírætt mönnum til sæmdar að vera bendlaðir við þessa plötu.

Mér finnst nýjasta framlag Heiðu til íslensks tónlistarlífs vera nokkuð frumlegt. Þá á ég ekki við frumlegt í þeim skilningi að verið sé að skapa nýjan stíl - enda er margt sígilt í lögunum - heldur er platan skemmtilega á skjön við þá íslensku tónlist sem hvað mest hefur verið hampað fyrir frumleika síðustu misseri. Þetta gerir það að verkum að hún er mjög hressandi tilbreyting. Það er í mínum eyrum að minnsta kosti.

Ólöf Helga Einarsdóttir

MBL

No comments: