Heida did see the Abbababb! Musical 12 times (May 2007)
(also saw Grease 20 times and read the Harry Potter books 6 times)
Article in Fréttablaðið, May the 4th, 2007
Hefur séð söngleikinn Abbababb! tólf sinnum
Einlægari aðdáandi Abbababb vandfundinn en Heiða reynir að mæta á allar sýningar.
„Ég var veik síðast og komst ekki. Þannig að ég er bara búin að sjá tólf sýningar," segir söngkonan og pólitíkusinn Heiða sem gjarnan er kennd við Unun. Þegar Fréttablaðið náði af henni tali var hún stödd með félögum sínum í Vinstri grænum á Hornafirði en fyrir dyrum stóð kosningafundur þar þá um kvöldið.
Ekki er ofsagt að segja Heiðu einlægan aðdáanda söngleiksins Abbababb sem sýndur er í Hafnarfjarðarleikhúsinu um þessar mundir. Hún er búin að sjá tólf sýningar og er hvergi nærri af baki dottin. Hún ætlar að sjá þær fleiri.
„Ég reyni að vera á öllum sýningum. Þetta er svo skemmtilegt. Og mannbætandi. Mér líður alltaf svo vel þegar ég kem út af sýningunni."
Dr. Gunni, vinur Heiðu, er höfundur söngleiksins og Heiða segir þau alveg á sömu línu með það að reyna að gera bara það sem er skemmtilegt.
„Þegar maður verður fullorðinn gleymast aðalatriðin.
Allir eru uppteknir við að græða peninga og svona. Ég hef aldrei verið mikið í því. Og þetta leikrit minnir mig rækilega á að það á bara að gera það sem er skemmtilegt."
Úr söngleiknum góða sem Heiða hefur í hávegum.
Heiðu finnst ekkert undarlegt við þetta mikla dálæti. Bendir á að þegar kvikmyndin Grease var sýnd voru dæmi um að menn færu á hana tuttugu sinnum og oftar. Og góðar bækur lesa menn aftur og aftur. Sjálf segist hún til dæmis vera búin að lesa allar Harry Potter-bækurnar sex sinnum.
„Það var ekkert planað að ég myndi mæta og mæta og hlæja," segir Heiða spurð hvort ekki hafi hreinlega komið til tals að borga henni fyrir að mæta og hvetja áhorfendur með einlægum hlátri sínum.
„En það eru reyndar hæg heimatökin. Maðurinn minn er í hljómsveitinni, spilar á gítar, og barnið okkar er á hárréttum aldri, fimm ára, og fjölskyldan er bara í þessu á sunnudögum. Launin mín felast í því að vera minnt á það að lífið á að vera skemmtilegt. Ég er alltaf að draga einhverja með mér og fólk segir alltaf eftir sýningar: Jájá, ég skil núna af hverju þú ferð aftur og aftur."
Sýningum á Abbababb lýkur síðar í þessum mánuði en Heiða vonar innilega að Abbababb verði tekið upp aftur á næsta leikári. Hún segist ekki alveg vita hvað fjölskyldan muni taka sér fyrir hendur á sunnudögum þegar sýningum lýkur. „Við verðum bara að stofna leynifélag sjálf, maðurinn minn, ég og barnið, og rannsaka óleyst mál. Hittast á leikvöllum og svona."
www.abbababb.is
No comments:
Post a Comment