The Fanpage of the Icelandic band Hellvar by Wim Van Hooste

Monday, December 17, 2007

Review of Bat out of Hellvar in Morgunbladid


Review by Jóhann Ágúst Jóhannsson for Newspaper Morgunblaðið - Monday 17. December 2007
Hellvar – Bat Out of Hellvar
Bat Out of Hellvar er fyrsta stóra plata hljómsveitarinnar Hellvar sem er skipuð þeim Elvari Geir Sævarssyni, Ragnheiði Eiríksdóttur, Alexöndru Sigurðardóttur og Sverri Ásmundssyni.
Bat Out of Hellvar er fyrsta stóra plata hljómsveitarinnar Hellvar sem er skipuð þeim Elvari Geir Sævarssyni, Ragnheiði Eiríksdóttur, Alexöndru Sigurðardóttur og Sverri Ásmundssyni. Þetta er einnig fyrsta breiðskífan sem hin nýstofnaða norðlenska plötuútgáfa Kimi Records gefur út, en það verður spennandi að fylgjast með gangi mála hjá Kima á næstunni enda margt í pípunum.
Ragnheiður Eiríksdóttir er engin önnur en Heiða úr Unun, sú mæta söngkona sem ávallt hefur verið Dr. Gunna til halds og trausts. Heiða er ekki allra þegar kemur að sönglistinni og ég verð að viðurkenna að ég er í hópi þeirra sem hafa alltaf átt örlítið erfitt með að meta hana að fullu. Hins vegar er það nú raunin að í stafni með Hellvar rokkar hún feitt og er svo sannarlega á heimavelli – allur flutningur hennar passar eins og flís við rass, virkilega glæsilegt. Bat Out of Hellvar er búin að vera lengi á leiðinni en biðin var þess virði og hún kemur á óvart. Hellvar er uppátækjasöm hljómsveit sem lætur hjartað ráða ferðinni og því er gleðin sönn. Hér er þó alls ekki um að ræða plötu fyrir alla – markmiðin eru skýr, það er rokk og ról á boðstólum með nettri nýbylgjugreddu bræddri saman við vel smurðan trommuheilann. Þetta sánd sem Helvar hefur tileinkað sér er ansi heillandi og fyllir hjartað af fortíðarþrá því lögin kallast á við níunda áratuginn og jafnvel þann áttunda án þess þó að hljóma gamaldags – þetta er bara gaman og nokkuð frumlegt. Sykurmolarnir koma upp í hugann (í laginu „Give Me Gold“) en einnig Kolrassa krókríðandi, Curver og að sjálfsögðu Dr. Gunni, en hann hefur verið ókrýndur meistari trommuheilans um árabil. Einnig má greina áhrif drungarokks í anda The Cure og jafnvel ofsa The Birthday Party. Flosi Þorgeirsson, fyrrverandi gítarleikari Ham, á feiknagóða innkomu en hann leikur á bassa í þremur lögum; „Electric Toy“, „Speedmental“ og „Ice Cream Drum Machine“. Annars á Sverrir heiðurinn af öðrum bassaleik á plötunni, Alexandra leikur á gítar en Heiða og Elvar sjá um annan hljóðfæraleik – allt frísklegt, taktfast og töff. Hellvar er mætt og hefur stimplað sig inn með glæsibrag – Bat Out of Hellvar er hörku rokkplata og hana nú!

No comments: