Hljómsveitin Hellvar er á leiðinni til Bandaríkjanna í stutta tónleikaferð þar sem hún spilar í norðurhéröðum New York-fylkis áður en hún leikur í New York-borg þann 9. ágúst. Hellvar mun nær eingöngu leika lög af komandi stórri plötu sinni en læðir þó inn einu og einu lagi af frumrauninni “Bat Out Of Hellvar” sem kom út 2007. Þetta er í annað sinn sem Hellvar spilar í New York-fylki en þangað fór sveitin haustið 2007, og spilaði í borgunum Chatham, Troy og Albany. Nú hefur hljómsveitinni verið boðið að leika á Hudson Harbor Fest þann 7. ágúst, en það er menningarhátíð Hudson-borgar sem haldin er árlega niðri við Hudson-á. Þar mun Hellvar spila ásamt harðkjarnasveitinni Cosmopolitan frá Kalíforníu. Hellvar leikur svo á tvennum tónleikum til viðbótar í Hudson, á sænska veitingastaðnum DABA þann 5. ágúst og á Musica Loft þann 8. ágúst. Í New York-borg spilar sveitin á Party Expo í Brooklyn með hljómsveitunum Small Devices, Soft Skin og Great Tiger!
Hellvar hefur fram til þessa verið kvartett og fimmti meðlimurinn verið í formi trommuheila en á vormánuðum 2010 var lifandi trommuleik bætt í sveitina með tilkomu hins mjög svo lifandi trommuleikara Ólafs Ingólfssonar. Stífar æfingar hafa því verið í gangi til að þétta og fullgera hljóminn, ásamt því að klára að semja og útsetja næstu plötu.
Við heimkomu heldur hljómsveitin í hljóðver, fersk úr ferðalaginu, til að taka upp nýja efnið.
Source: Poppland @ Rás 2
No comments:
Post a Comment