The Fanpage of the Icelandic band Hellvar by Wim Van Hooste

Thursday, January 18, 2007

Review by Heida Eiriksdottir of the Concert of Goldie Lookin Chain @ NASA Reykjavik

Dagsetning: 10.02.2006

Viðburður: Goldie Lookin' Chain

Staðsetning: NASA

Nánari upplýsingar:
http://www.event.is

Umsögn:
Tónleikar Goldie Lookin’ Chain á Nasa 10. febrúar 2006 Goldie Lookin’ Chain er nýleg hljómsveit ættuð frá Newport í Wales. Höfuðpaur hennar, P Xain, byrjaði að fikta við að gera tónlist inni í herbergi hjá sér á ódýrar græjur uppúr árinu 2000, og síðan bættust nokkrir félagar hans í hópinn. Fljótlega kom í ljós að þeir gátu vel samið góð lög, og þeir hófu að senda frá sér heimagerða geisladiska og dreifa tónlistinni með hjálp Netsins. Fyrsta lagið hét „Don’t Blame The Chain“ og kom út árið 2002. Þeim óx smátt og smátt fiskur um hrygg, og fyrsta stóra platan, „Greatest Hits“ leit dagsins ljós árið 2004. Föstudagskvöldið 10. febrúar 2006 lék hljómsveitin fyrir Íslendinga, á tónleikum á skemmtistaðnum Nasa. Klukkan tæplega ellefu um kvöldið fyllist sviðið á Nasa af nördalegum, breskum mönnum. Meðlimir Goldie Lookin’ Chain voru klæddir í mjög svo hefðbundin rapparaföt og voru svolítið eins og vinir Ali G, í bolum og íþróttabuxum. Þeir báru svo allir gullkeðju sér um háls, og fannst mér að það væri í raun hinn eiginlegi hljómsveitarbúningur þeirra. Þessir menn virtust óteljandi margir en þegar ég ákvað samt að reyna að slá tölu á hópinn var það þrautin þyngri, því þeir voru allir á iði, fram og til baka og út á hlið. Reiknast mér þó til að þeir hafi verið átta, en til aðstoðar höfðu þeir einn til viðbótar á sviðinu. Þeir voru því eins og íslensku jólasveinarnir: Einn og átta. Hópurinn hóf strax að flytja lögin sín og áhorfendur voru vel með á nótunum. Smellir á borð við „Guns Don't Kill People, Rappers Do“, og „Your Missus Is A Nutter“ eru grípandi, og fólk var greinilega komið til að skemmta sér og söng með af innlifun. Tónlist Goldie Lookin' Chain er best lýst sem bresku „sing-along“-rappi, og er ég þá að meina að yfirleitt er eitthvað viðlag sem flestir meðlima sveitarinnar syngja saman, og er mjög einfalt og grípandi. Bresk pönktónlist hefur einatt innihaldið slíka kafla eða viðlög, og því hefur verið haldið fram að bresk drykkjumenning, og drykkjuslagarar séu þar áhrifavaldur. Allir sitja að sumbli á breskri krá, og taka undir í viðlögunum í einföldum lögunum. Það er ekki um að villast að Goldie Lookin’ Chain, eða Glc, taka sig ekkert allt of hátíðlega, en það er einmitt breski húmorinn þeirra sem er mest heillandi. Bretar virðast oft hafa einstaka kómíska sýn á heiminn, og Glc endurspegla hana í tónlist sinni. Þeir eru þó ekki að gera grín að rapptónlist sem slíkri, heldur eru þeir eins konar „gamanrapparar“ og alveg sér á parti þar. Það sem mér þótti þó líklega vænst um varðandi hljómsveitina var að sjá, að þetta voru bara venjulegir nördastrákar að skemmta sér vel við að skemmta öðrum. Þeir voru ekki kúl eða svalir sem slíkir, heldur hálf-lúðalegir, og fyrir vikið urðu þeir helmingi svalari. Ég held að nýja kúlið sé að vera nörd, það er sum sé svalara að vera halló en töff. Fólk sem er sífellt að rembast við að elta eitthvað útlit eða einhverja tískustrauma steingleymir að vera skemmtilegt. Goldie Lookin’ Chain muna að vera skemmtilegir.
Heiða Eiríksdóttir

No comments: