The Fanpage of the Icelandic band Hellvar by Wim Van Hooste

Saturday, November 04, 2006

Reviews in Morgunbladid

Heida writes reviews of concerts & CDs for the Newspaper Morgunbladid

Example of Concert Review

Sunnudaginn 11. júní, 2006
TÓNLIST - Tónleikar
Á röngum tíma, í vitlausu húsi
Sleater-Kinney
Sleater-Kinney á Nasa sunnudagskvöldið 4. júní 2006. Tónleikar voru sameinaðir tónlistarhátíðinni Reykjavík Tropík.

"Það fór því svo að eftir ESG voru margir áhorfendur mun fremur að bíða eftir að Trabant hæfi leik til að geta dansað svolítið meira en raunverulega að gefa Sleater-Kinney gaum," segir í dómi.
HLJÓMSVEITIN Sleater-Kinney hefur um áraraðir verið leiðandi í bandarískri neðanjarðar-rokksenu, og hefur þar fyrir utan sérstöðu fyrir það að vera kvennasveit. Stúlkurnar Carrie Brownstein og Corin Tucker spila á gítar og syngja og Janet Weiss spilar á trommur og syngur bakraddir. Bassaleikari er enginn, og eykur það mjög á séreinkenni sveitarinnar og þeirra eigin hljóm. Þær eru hressileg rokksveit, með grípandi melódíur og sönglínur án þess að missa nokkurn tímann hráleikann og nýbylgjuna sem þær standa fyrir. Þær gáfu út fyrstu plötu sína árið 1995, en eru nú að kynna sína sjöundu, The Woods, frá árinu 2005.
Tónleikar Sleater-Kinney höfðu verið ákveðnir með miklum fyrirvara, og þær að koma beint frá Primavera-hátíðinni í Barcelona, en á laugardagskvöldinu var ákveðið að færa lokakvöld tónlistarhátíðarinnar Reykjavík Tropík inn á Nasa. Sleater-Kinney var bætt á prógram hátíðarinnar, og þær settar fyrir aftan bandarísku sveitina ESG, en það kom því miður ekki nógu vel út. Þessar sveitir eru báðar frábærar og mjög eftirtektarverðar, en hljóðheimur ESG er harla ólíkur Sleater-Kinney, og hljómur hjá ESG þetta kvöld var mjög þéttur og þær að hvetja dansþyrsta áhorfendur til dáða. Bassinn í ESG er áberandi og trommuleikari framúrskarandi og sú sveit notast alls ekki við rifinn hljóm eða bjagaða gítara, og því var vægast sagt undarlegt að skella Sleater-Kinney þarna á eftir. Þær hefðu sómt sér mun betur á eftir Dr. Spock og á undan ESG, því þar hefðu tónleikar þeirra komið sem gott framhald af tilraunakenndu rokki Dr. Spock. Það fór því svo að eftir ESG voru margir áhorfendur mun fremur að bíða eftir að Trabant hæfi leik til að geta dansað svolítið meira en raunverulega að gefa Sleater-Kinney gaum.
Þetta skilaði sér í því að ákveðinn kjarni áhorfenda sem stóð þétt upp við sviðið var í miklu stuði og í rífandi stemningu, en megnið af áhorfendum biðu sem illa gerðir hlutir eftir að Sleater-Kinney lyki sér af, og drap tímann með gsm-símum og myndavélum sínum. Þarna var greinilega um rangt ,,krád" að ræða, og ef þeim 200 manns sem voru í alvörunni að lifa sig inn í tónleikana hefði verið smalað á Grand-rokk og Sleater-Kinney spilað þar fyrir fullu húsi, hefðu líklega allir skemmt sér betur, hljómsveitin með talin.
Ég stóð því miður aftarlega og þótt ég sæi og heyrði vel var ég alls ekki að upplifa mig sem hluta af einhverjum skemmtilegum tónleikum, og fékk ekki á tilfinninguna að Sleater-Kinney væru að því heldur. Þær byrjuðu óþétt og alls ekki eins kraftmikið og maður hefur kynnst á diskum þeirra. Þær reyndu sitt besta til að rífa upp stemmninguna, en virkuðu ósannfærðar sjálfar. Söngurinn er full-lágur og vantar töluvert upp á að rödd njóti sín vel. Hljómurinn lagaðist þó heilmikið eftir því sem leið á tónleikana, og í vissum lögum náðu þær að gleyma sér og komast á smá flug, en það var lágflug og þær lentu mjög fljótt aftur. Í raun og veru fannst mér eins og þær hefðu skynjað að áhorfendur væru ekki komnir til að sjá þær þetta kvöldið, og þær því ákveðið að spila bara prógrammið sitt og fara. Þær töluðu lítið til áhorfenda, og týndu sér í löngum ,,djammköflum" sem voru ekki nógu góðir til að halda athyglinni. Lögin runnu í gegn hvert af öðru, og sum voru hressilegri en önnur, og svo bara lognuðust tónleikarnir eins og af sjálfu sér út af. Það er helst að trommuleikarinn hafi einhvern veginn náð að skila kraftmiklum tónleikum, en hún spilar mikið með gólfpákur, og hrynjandi sveitarinnar er því oft villimannslegur og ögn brjálaður. Söngkonur sveitarinnar ollu vonbrigðum og voru alls ekki að gera það sem gera þarf til að góðir tónleikar séu góðir. Ég tek fram að ég hef mjög gaman af tónlist stúlknanna í Sleater-Kinney og hef hlustað svolítið á bæði eldri og nýrri diska hennar, en þessir tónleikar hafa eflaust ekki verið gott dæmi um kraftinn sem í þeim býr. Það var reyndar mjög skiljanlegt, og mér dettur sjálfri ekki í hug nein rokkhljómsveit sem myndi sóma sér vel á eftir hinum vel öldnu dansvænu blökkudísum í ESG. Svo fór sem fór, og vona ég bara að Sleater-Kinney komi síðar og troðfylli Grand eða Gauk og haldi nýbylgjupartý ársins. Þetta kvöld var eyrnamerkt ESG.

Heiða Eiríksdóttir

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1087571

Example of Review of CD
Mánudaginn 17. júlí, 2006
TÓNLIST - Geisladiskur

Band öfga og andstæðna
Sólstafir - Masterpiece of bitterness

7 lög, heildartími 70.24 mínútur. Sólstafir eru: Aðalbjörn Tryggvason gítar og rödd, Guðmundur Óli Pálmason, trommur, Svavar Austman, bassi og Sæþór M. Sæþórsson, gítar. Lög og textar eru eftir Sólstafi.Tekið upp í Stúdíó Helvíti af Sigurgrími Jónssyni.7 lög, heildartími 70.24 mínútur. Sólstafir eru: Aðalbjörn Tryggvason gítar og rödd, Guðmundur Óli Pálmason, trommur, Svavar Austman, bassi og Sæþór M. Sæþórsson, gítar. Lög og textar eru eftir Sólstafi.Tekið upp í Stúdíó Helvíti af Sigurgrími Jónssyni. Upptökustjórn Sigurgrímur Jónsson og Aðalbjörn Tryggvason. Hljóðblöndun Sigurgrímur Jónsson. Masterað í Finvox í Helsinki af Mika Jussila. Myndverk og hönnun er í höndum Söndru Maríu Sigurðardóttur/SMS. Söngkona í "I myself the visionary head" er Hlín Pétursdóttir. Spikefarm records gefur út 2005.
ÞAÐ FYRSTA sem maður tekur eftir við að hlusta á tónlist Sólstafa er hve "lífræn" rokktónlist þeirra er. Vissulega er hún rafmögnuð og í engu til sparað í notkun á effektum í gíturum og bassa, og því er hún ekki lífræn í merkingunni órafmögnuð. Hún er meira lífræn í þeim skilningi að hafa eigið líf. Trommuleikurinn á sinn þátt í því, en hann er oft með mjög ófyrirsjáanlega nálgun við lögin og takturinn er hægur og hraður eftir því hvort um er að ræða hægan og dreymandi kafla eða skyndilegan og ofsafenginn stuðkafla í lagi.
Sólstafir eru mikið fyrir kaflaskipt lög, svo mikið er óhætt að segja. Þeir líta út fyrir að fá svolítið "kikk" út úr því að taka hugmynd og fara með hana yfir mörk velsæmis, ef svo mætti að orði komast. Gott dæmi um það er "I myself the visionary head", fyrsta lag plötunnar. Grunnhugmyndin að því lagi er mjög góð og úr henni hefðu venjulegar hljómsveitir gert ca 5-6 mínútna fyrirtaks lag. Svo hefðu leiðinlegar hljómsveitir farið með lagið í eitthvert runk og endurtekningar og gert lagið að 12 mínútna löngum afspyrnuleiðindum.
Sólstafir sýna snilligáfu sína með því að þora að hafa lagið 19.55 mínútna langt. Þeir ýkja hæga framvinduna og gera sér mat úr endurtekningunum þangað til lagið hættir bara að vera lag og verður miklu frekar saga. Það er nógu langt til að hægt sé að hjóla út í búð og kaupa mjólk í kaffið og hjóla til baka og það er enn í gangi. Það er líka nógu langt til að hægt sé að leggjast endilangur í sófann og komast í hugleiðsluástand í þessar tæpar tuttugu mínútur sem það spannar. Þeir spara kraftinn eins lengi og þeir geta og springa svo að lokum út í kringum 17 mínútna mörkin. Svavar bassaleikari raddar gítarlínurnar skemmtilega undir lok lagsins og gefur það endalokunum aukið vægi, sem og kraftinum í gítardrón-kaflanum.
Þetta langa upphafslag fangar athygli hlustenda, öfugt við það sem maður myndi halda. Spennan hefur magnast í fyrsta laginu, því maður hefur upplifað eitthvað, gengið í gegn um einhverja sögu með hljómsveitinni Sólstöfum.
Það eru miklar tilfinningar í rödd söngvarans, og hans helsti styrkur hve röddin er brothætt, því við það verður mjög sérstakur hljómur til. Slíkur hljómur lærist ekki nema að takmörkuðu leyti, en viðkvæm túlkun hans virkar einmitt mjög vel með sterkum og þungum bassanum og gíturunum. Þarna eru andstæðurnar að vinna vel saman: Lífrænar trommur, gítarveggur, þéttur bassi og tilfinningarík rödd, og úr verður eitthvað alveg sérstakt: Sólstafir.
Sólstafir hljóma, þótt undarlegt megi virðast, ekki eins og neitt annað sem ég hef heyrt og verður það að teljast vel heppnað afrek í dag. Platan Masterpiece of bitterness inniheldur blöndu af krafti og gítarveggjum, og sorglegri, dramatískri tónlist sem lætur manni renna kalt vatn milli skinns og hörunds á stundum.
Tónlistin er í senn drungaleg og kraftmikil, draugaleg og hressandi, draumkennd og rokkuð. Í næstsíðasta laginu, Ritual of fire, eru þessar andstæður eins mikið sameinaðar og möguleiki er á. Þá hljóma Sólstafir eins og stóri bróðir Sigur Rósar, en klæddur í svart leður frá toppi til táar, á leiðinni á þungarokkstónleika. Líklega er þetta eina lagið á plötunni sem skartar dúrkafla, og því verður það aðeins glaðlegra fyrir vikið, og þá dettur manni í hug Sigur Rós, en það er eins og flest annað við Sólstafi; tímabundin tálsýn og blekking. Sólstafir eru eins og afturganga: Þegar henda á reiður á henni smýgur hún manni úr greipum og reynist að lokum vera eitthvað allt annað en í upphafi var talið. Sólstafir eru band öfga og andstæðna og ná því sem marga samferðamenn þeirra skortir: Að hlusta á sína eigin rödd og fylgja henni eftir. Vel gert, strákar.

Heiða Eiríksdóttir

No comments: